Fjölskylda Orra Vigfússonar færði Síldarminjasafninu á Siglufirði veglega gjöf á dögunum en það var stórt og mikið málverk úr eigu Orra og föður hans, Vigfúsar Friðjónssonar, síldarsaltanda. Verkið málaði þýskur listamaður upp úr 1950, eftir ljósmynd að ósk Vigfúsar. En málverkið sýnir miklar stæður af síldartunnum sem bíða útflutnings, milli húsa á þeim slóðum sem Vigfús rak síldarsöltun sína, Íslenskan fisk, á árunum 1953-1960. Alfonshúsið, sem um tíma var heimili fjölskyldunnar, er í forgrunni til hægri og fremstir á myndinni standa þeir feðgar, Vigfús og Orri. Síldarminjasafnið greinir frá þessu á vef sínum.

Orri fæddist á Siglufirði árið 1942 en lést í júlí árið 2017. Sautján ára fluttist hann til Lundúna þar sem hann lagði stund á viðskiptafræði við London School of Economics.
Orri gegndi fjölmörgum ábyrgðarstöðum og var áberandi í íslensku viðskiptalífi. Hann sat meðal annars í stjórn Íslandsbanka um árabil og einnig í stjórn Íslenska sjónvarpsfélagsins – sem þá rak og átti Stöð 2.

Orri beitti sér fyrir uppbyggingu Norður-Atlantshafs laxastofnsins og var stofnandi NASF, Verndarjóðs villtra laxastofna þar sem hann gengdi ennfremur formennsku.

Myndir með frétt: Síld.is – Síldarminjasafnið.