Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur endurnýjað samning við Menntamálaráðuneytið en núverandi samningur fellur úr gildi um áramót. Þann 3. desember síðastliðinn undirrituðu Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Anita Elefsen rekstrarstjóri safnsins þriggja ára samning, sem gildir frá 1. janúar 2016 nk. til ársloka 2018.
Síldarminjasafnið hefur endurnýjað stefnumörkun safnsins til næstu fjögurra ára. Meginatriðin í nýrri stefnumörkun Síldarminjasafnsins 2016 – 2019 varða starfsmannahald, skráningu og varðveislu, miðlun sögunnar á fjölbreyttari hátt og þróun safnkennslu svo dæmi séu nefnd.
Í rekstrar- og verkefnaáætlun safnsins fyrir árið 2016 er gert er ráð fyrir heildarkostnaði að upphæð 49,4 milljónir, þar af 14,8 milljónir vegna sérstakra verkefna. Sem dæmi um slík verkefni má nefna áframhaldandi uppbyggingu Salthússins, endurnýjun sýningarbúnaðar í Bátahúsinu og uppsetningu sprinkler kerfis í Róaldsbrakka.