Síldarminjasafnið býður í gönguferðir um verslunarmannahelgina

Síldarminjasafnið á Siglufirði býður upp á tvær stuttar gönguferðir með leiðsögn um verslunarmannahelgina.

Laugardaginn 1. ágúst kl. 11:00 býðst gestum að ganga að rústum Evangersverksmiðjunnar með Örlygi Kristfinnssyni sem fræðir gesti um sögu verksmiðjunnar og hið mannskæða snjóflóð sem féll í apríl 1919 og sópaði verksmiðjunni út á haf. Gengið verður frá gömlu flugbrautinni.

Sunnudaginn 2. ágúst kl. 18:00 býðst gestum að ganga í Hvanneyrarskál með Anitu Elefsen sem fræðir gesti um sögu síldarbæjarins Siglufjarðar og hið mikla og litríka mannlíf staðarins; síldarvinnuna, landlegurnar, tónlistina og rómantíkina. Gengið verður frá gömlu rafstöðinni.