Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Austfjarðarliðinu Hetti/Huginn á Ólafsfjarðarvelli í kvöld í 10. umferð Íslandsmótsins. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið en Höttur/Huginn hefur verið við fallsæti deildarinnar og KF hefur verði að færast frá miðri deild og niður í neðri helminginn. Höttur/Huginn hafði tapað naumlega fyrir besta liði deildarinnar, Njarðvík í síðasta leik.

Liðin mættust í deildarbikarnum í febrúar og unnu Austfirðingarnir 2-3.  Liðin léku síðast saman í 3. deildinni 2019 og vann þá KF sinn heimaleik örugglega og útileikinn 3-4.

Fyrri hálfleikur var nokkuð tíðindalaus en KF þurfti þó að gera skiptingu um miðjan hálfleik vegna meiðsla, en Sævar Þór Fylkisson kom inná fyrir Hrannar Magnússon.  Staðan var 0-0 í hálfleik.

KF mættu ákveðnir til leiks eftir leikhlé og uppskáru mark strax á 49. mínútu og var það brasilíumaðurinn Julio Cesar Fernandes sem skoraði sitt 6 mark í 10 leikjum fyrir KF.

Gestirnir gerðu skiptingu fimm mínútum eftir markið en á 58. mínútu var þessi frábæri varamaður búinn að jafna leikinn, staðan 1-1 og rúmur hálftími eftir.

Þjálfari KF gerði tvær skiptingar á síðasta korterinu til að reyna knýja fram sigur.

Allt stefndi í jafntefli á Ólafsfjarðarvelli, en bæði lið þurftu sigur. Það voru gestirnir sem áttu lokaorðið í leiknum þegar þeir skoruðu á þriðju mínútu í uppbótartíma og komust í 1-2 þegar skammt var eftir.

KF tókst ekki að jafna metin og vann því Höttur/Huginn þennan leik 1-2 og lyftu sér úr fallsæti og í 9. sæti, tveimur stigum frá KF.

Fyrsta tap KF á heimavelli í deildinni í ár. Liðinu gengur ekki nægjanlega vel að tengja saman sigra og er liðið að sogast niður í neðri helminginn. Næsti leikur KF verður gegn ÍR á útivelli, laugardaginn 16. júlí.