Sigurmark í uppbótartíma á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Siglufjarðar Apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Fyrsti heimaleikur KF í deildinni var í gær á Ólafsfjarðarvelli. Vel var mætt á völlinn og var hólfaskipt og voru 200 miðar í boði. Veðbankar voru nokkuð sigurvissir um sigur KF í þessum leik og var nokkuð hár stuðullinn að Leiknir myndi taka þrjú stigin, en fyrirfram var búist við jöfnum leik, en KF hefur byrjaði mótið af krafti en Leiknir voru stigalausir fyrir leikinn.

Leiknir féll úr Lengjudeildinni árið 2020 eftir skamma dvöl en liðið vann 2. deildinna árið 2019. Liðið er byggt upp af erlendum leikmönnum og ungum heimamönnum af Austfjörðum. Leiknir byrjaði með 6 erlenda leikmenn í þessum leik.

KF stillti upp sínu sterkasta liði og gátu með sigri náð 3ja stiga forystu í deildinni, þar sem öllum öðrum leikjum var lokið fyrir þennan leik. Bjarki Baldursson leikmaður KF stimplaði sig strax inn með gulu spjaldi á 6. mínútu, og varð hann því að fara varlega í allar tæklingar nánast allan leikinn. Markmaður Leiknis varð fyrir meiðslum strax á 13. mínútu og þurfti að fá skiptingu og kom því varamarkmaðurinn inná, 23 ára, en með litla leikreynslu. Hann átti eftir að standa vel fyrir fyrir sínu í þessum leik.

Heimamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og voru meira með boltann og sköpuðu sér nokkur færi. Þrátt fyrir ágætis tilraunir þá var markalaust í hálfleik.

Gestirnir gerðu aðra breytingu á 56. mínútu, en Leiknismenn eru vanir að nota flesta sína varamenn í öllum leikjum. Leiknismenn sóttu í sig veðrið í síðari hálfleik og fengu nokkur færi sem hefðu getað endað með marki. Ljuba Delic krækti sér í gult spjald á 69. mínútu, og á 70. mínútu gerði þjálfari Leiknis sína þriðju skiptingu.

Þegar um 10 mínútur voru eftir af leiktímanum þá kom fyrsta skiptingin hjá Slobotan Milisic þjálfara KF, en inná komu Hrannar Snær og Halldór Mar, en útaf fóru Andri Morina og Atli Snær. Ferskir menn settir inná fyrir loka baráttuna. Talsverður hiti var í mönnum á lokamínútum leiksins og náði KF sér í þrjú gul spjöld til viðbótar, Hrannar Snær fékk gult á 89. mínútu, Þorsteinn Þór aðstoðarþjálfari KF á 90. mínútu og Halldór Mar á 92. mínútu.

Allt stefndi í markalaust jafntefli en sigurmarkið kom alveg í blálokin þegar Sachem Wilson skoraði markið dýrmæta og tryggði KF öll stigin. Hans fimmta mark í deild og bikar í ár, og þriðja markið í þremur leikjum í deildinni.

Enn einn dramatískur sigur sem KF vinnur í uppbótartíma. Liðið hefur núna þriggja stiga forskot í deildinni eftir þrjár umferðir. Næsti leikur verður á föstudaginn þegar liðið heimsækir Völsung á Húsavík.

 

———————————————————-

Þökkum aðalstyrktaraðilum fyrir veittan stuðning.