Rammi hf. hefur selt togarann Sigurbjörgu ÓF-1 til Noregs. Skipið er frystitogari og var með 26 manns í áhöfn. Fjallabyggð bauðst forkaupsréttur á skipinu núna í október en sveitarfélagið féll frá boðinu. Skipið er nú farið til Noregs, en skipið þótti eitt fullkomnasta fiskiskip íslenska flotans á sínum tíma og var oft kallað Drottningin. Nýi togarinn Sólberg ÓF-1 hefur leyst skipið af hólmi ásamt Mánabergi ÓF-42.

Skipið var smíðað árið 1979 og er tæplega 55 metrar að lengd og rúmir 10 metrar á breidd. Skipið hafði staðið við höfnina í Fjallabyggð síðan í júní, en fór til Póllands í byrjun árs í vélarupptekt. Núna í október fór skipið svo í slipp til Akureyrar áður en það var selt. Skipið er nú í höfn á eyjunni Vigra við Noreg, við bæinn Roald.