Sigur hjá KF í fyrsta leik

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék við KA-3 í gær í B-deild Kjarnafæðismótsins sem fram fór í Boganum á Akureyri. Í liði KA voru mest strákar fæddir árið 2000-2002 og eru flestir í 2. flokki félagsins. Í liði KF eru mest heimamenn sem eru fastaliðsmenn hjá félaginu síðustu árin í bland við unga og efnilega og eins leikmenn á reynslu. KF hafði nokkra leikmenn á reynslu í þessum leik og einn þeirra var Birkir Freyr Andrason, 19 ára sem kemur frá KA en kom í fyrra frá Þrótti Nes til KA. Hann var í byrjunarliðinu í þessum leik. Annar á reynslu í þessum leik Atli Fannar Írisarson leikmaður Dalvíkur/Reynis, hann byrjaði leikinn á bekknum. Hann hefur leikið síðustu ár með Dalvík og hefur spilað 29 leiki fyrir félagið.

Þessi leikur var auðvitað skyldusigur fyrir KF sem stillti upp sterku liði. Aksentije Milisic gerði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu og kom KF í 1-0. Töluverður hasar var í fyrri hálfleik, en KF fékk þrjú gul spjöld og KA eitt á upphafsmínútum leiksins.  Staðan var 1-0 fyrir KF í hálfleik.

KA gerði þrefalda skiptingu í hálfleik til að leyfa fleiri strákum að spila. KF gerði eina skiptingu um miðjan fyrri hálfleik og aðra í leikhlé. Halldór Logi skoraði skömmu eftir leikhlé og kom KF í 2-0 á 51. mínútu. Aðeins tólf mínútum síðar skoraði Friðrik Örn fyrir KF og staðan orðin 3-0. Aðeins mínútu síðar skoraði Atli Fannar fjórða mark KF, og staðan orðin 4-0 á 64. mínútu leiksins. Góð innkoma hjá honum Atla Fannari sem er á reynslu hjá félaginu.

Liðin gerðu svo fleiri skiptingar en mörkin urðu ekki fleiri og öruggur sigur KF á KA, 4-0 lokatölur.