Sigrún Hjálmtýs og Bergþór Páls á Dalvík

Sigrún Hjálmtýsdóttir og Bergþór Pálsson syngja á tónleikum á Dalvík mánudaginn 18. júlí. Píanóleikari er Kjartan Valdemarsson.  Á efnisskránni kennir ýmissa grasa; ljúflingslög eftir Inga T. Lárusson, Sigfús Halldórsson, Jónas og Jón Múla, Oddgeir Kristjánsson o.fl., en einnig létt Vínarlög og önnur þekkt erlend sönglög.

Tónleikarnir verða á Dalvík 18. júlí kl. 20:00 í Bergi menningarhúsi.

Þau Diddú og Bergþór hafa átt margvíslegt samstarf í áranna rás, haldið fjölda tónleika saman, farið með aðalhlutverk saman í mörgum óperum og síðast en ekki síst komið fram á óteljandi skemmtunum af fjölbreyttu tagi.  Það verður létt og fallegt yfirbragð á tónleikunum, enda eru þau löngu þekkt fyrir glaðlega útgeislun og vandaðan tónlistarflutning.  Kjartan mun prýða tónleikana af sinni alkunnu hógværð og leikni, enda er hann eftirsóttur píanóleikari af öllum helstu söngvurum landsins, en búast má við að hann kippi nikkunni með.

Verð á tix.is 4.900
Verð við innganginn 5.500

f7f5c679-6bc7-4f0b-9f63-314e3c3ad223