Siglufjörður tilnefndur sem mataráfangastaður Norðurlandanna

Tilkynnt hefur verið um þá aðila sem tilnefndir eru til Embluverðlaunanna en verðlaunin eru samnorræn matarverðlaun.  Siglufjörður er þar á meðal í flokknum “Mataráfangastaður Norðurlandanna 2017”.  Alls er keppt í sjö flokkum sem hægt er að lesa nánar um hér.

Verðlaunin verða veitt í Kaupmannahöfn þann 24. ágúst næstkomandi, á sama tíma og ein stærsta matarhátíð Norðurlandanna fer fram þar í borg, Copenhagen Cooking & Food Festival.

Embla er heitið á norrænum matarverðlaunum sem öll bændasamtök á Norðurlöndunum standa að í samvinnu við norrænu ráðherranefndina. Verðlaununum er ætlað að hampa því sem skarar fram úr í hinu norræna eldhúsi: hráefni, matvælum, framleiðsluaðferðum og fólkinu á bak við allt saman. Markmiðið með Embluverðlaununum er að deila þekkingu og reynslu og vekja athygli á norrænum mat.