Siglufjörður kemur til greina fyrir olíuleitarþjónustu

Olíudreifing kannar nú aðstæður á nokkrum stöðum á landinu í því augnamiði að byggja upp þjónustustöð við hugsanlega olíuleit. Samkomulag hefur náðst við Asco, stærsta fyrirtæki heims á þessu sviði.

Olíudreifing stefnir að því að reisa þjónuststöð fyrir þá sem leita að olíu á Drekasvæðinu, bæði Íslands- og Noregsmegin og einnig þá sem leita að olíu við austur Grænland. Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar, segir fyrirtækið hafa skoðað aðstæður á Reyðarfirði, Húsavík og Akureyri.

Hörður segir að það hafi verið samdóma álit þessara væntanlegu samstarfsaðila fyrirtækisins að allir þessir staðir hefðu þá þjónustu sem leitað sé að, að minnsta kosti á fyrstu árunum. En verið sé að skoða fleiri staði en eftir eigi að fara t.d. til Vopnafjarðar. Vopnafjörður hafi styttri siglingatíma á vinnslusvæðið en hinir staðirnir og Reyðarfjörður hafi töluvert styttri siglingatíma heldur en Akureyri. Reyðarfjörður og Húsavík séu nánast á sömu sjómílunni í fjarlægð frá þessum væntanlegu vinnslusvæðum. Síðan séu fleiri staðir eins og Siglufjörður sem geti komið til greina.

Gerð er krafa um góða höfn, landrými, nauðsynlega tækniþjónustu, tengsl við flugsamgöngur og gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Endanlegt staðarval er hinsvegar í höndum þeirra sem sem hyggja á olíuleit. Fleiri fyrirtæki gætu viljað þjónusta olíuleitina en Olíudreifing hefur forskot því hefur gert viljayfirslýsingu við bæði Fjarðabyggð og Akureyrarhöfn. Þá hefur hún náð samkomulagi við skoska fyrirtækið Asco sem er stærsta fyrirtæki heims í þjónustu við olíuleit. Hörður segir að þeir séu með 1600 starfsmenn og tæplega 50 ára starfsreynslu. Þeir vinni með öllum stærstu olíufélögum í heims og séu þekkt nafn. Hann telji góða möguleika á því að geta náð þessari þjónustu hingað.

Heimild: Rúv.is