Nú er fært um Siglufjarðarskarð og niður í Fljótin, en sú leið hefur verið ófær í nokkur ár en Vegagerðin hefur ekki haft það á áætlun sinni að halda veginum opnum. Á síðasta ári var opnað Siglufjarðarmegin og hægt að komast þaðan upp í skarðið, en ófært var Fljótamegin. Skarðsvegurinn var lengi eini vegurinn til Siglufjarðar en hann var lagður árið 1946. Með tilkomu Strákaganga árið 1967 minnkaði notkunin á veginum sem var þó aðeins opinn í 3-4 mánuði á árinu.

Vegurinn er skemmtileg ferðamannaleið, en þó aðeins fær jeppum og bílum með drif á öllum. Fara þarf varlega í akstri en vegurinn er víða mjór og erfiður yfirferðar.

Siglfirðingur.is greindi fyrst frá opnun Siglufjarðarskarðs.