Siglufjarðarskarð hefur verið opnað

Vefurinn Sigló.is greinir frá því Siglufjarðarskarð hafi verið mokað nú um helgina en talsverður snjór var enn þar upp eftir veturinn. Núna geta ferðamenn keyrt og gengið þessa vinsælu og fallegu leið.

Leiðin um Siglufjarðarskarð er talin vera um 17. km löng og hæsti punktur um 630 metrar.

Leiðin um Siglufjarðarskarð úr vestri liggur við vegamót við Siglufjarðarveg (76) við Heljartröð um 1,7 km utan við bæinn Hraun í utanverðum Fljótum. Farið er utan í suðurhlíð Hraundals upp aflíðandi brekkur uns komið er upp í skarðið. Leiðin liggur niður Skarðsdal og endar við vegamót við Flugvallarveg (792).  Í Skarðsdal er skíðasvæði Siglfirðinga og nyrsti skógur á Íslandi.

Árið 1940 var skarðið sprengt niður um 14 metra og í framhaldi af því ráðist í að gera bílfæran veg þar yfir. Fyrsti bíllinn ók um skarðið árið 1946 og ári síðar var vegurinn tilbúinn. Þrátt fyrir lækkunina er Siglufjarðarskarð einn af hæstu og snjóþyngstu fjallvegum landsins. Yfirleitt tókst aðeins að halda leiðinni opinni 3-5 mánuði á ári. Það var því mikil samgöngubót fyrir Siglufjörð þegar lokið var við gerð nýs vegar 1967 frá Fljótum út með ströndinni og í gegnum Strákagöng. Leiðinni um Siglufjarðarskarð er þó enn haldið opinni fyrir jeppa yfir sumartímann.

Ljósmyndir frá Guðmundi Skarphéðinssyni má sjá hér af mokstrinum.

Ljósmyndir: Héðinsfjörður.is / 2011.