Siglufjarðarkirkja 85 ára

Á mánudaginn næstkomandi eru 85 ár frá því Siglufjarðarkirkja var tekin í notkun.  Í tilefni afmælisins verður hátíðarmessa í dag, sunnudag, 27. ágúst, kl. 14.00. Frú Solveig Lára Guðmundsdóttir Hólabiskup prédikar, sóknarprestur þjónar fyrir altari, Kirkjukór Siglufjarðar syngur og auk hans þær systur Eva Karlotta og Ragna Dís Einarsdætur, sem og Þorsteinn B. Bjarnason. Sigurður Hlöðvesson leikur á trompet. Organisti verður Rodrigo J. Thomas.

Sumarið 1930 var byrjað að undirbúa bygginguna og fjáröflun gerð fyrir verkið. Kostnaðaráætlun fyrir verkið var 80.677 kr að undanskilinni jarðvinnslu.  Arkitektinn var Árni Finsen og yfirsmiður var Sverrir Tynes. Útboðið var auglýst um haustið samtímis á Siglufirði, Akureyri og í Reykjavík. Jón Guðmundsson og Einar Jóhannsson voru valdir til verksins og voru þeir frá Akureyri. Þeir áttu ekki lægsta tilboðið og olli það einhverjum deilum. Þeir skrifuðu undir verksamning í febrúar 1931. Byrjað var að grafa fyrir kirkjunni í maí 1931 og hófst steypuvinna í júní sama ár. Steypu var lokið í ágúst 1931 og var kirkjan þá nær fokheld. Var svo kirkjan fullsmíðuð um veturinn. Málngarvinnan var einnig boðin út í júní 1932 og var hún máluð um sumarið.

Kirkjubekkirnir voru smíðaðir af Ólafi Ágústssyni á Akureyri, Altarið var smíðað af þeim Jóni og Einari og var það gjöf þeirra til kirkjunnar og þótti raunsarlegt.  Orgelið og kirkjuklukkurnar voru gjafir frá Sparisjóði Siglufjarðar en stærri kirkjuklukkan er talin vega um 900 kg. Orgelið var víst ókomið þegar að kirkjan var vígð í ágúst 1932, og tafðist afhending um 1 ár. Þann 28. ágúst 1932 voru liðnar 67 vikur frá því að byggingarframkvæmdir hófust.

Á vígsludaginn 1932 komu fjöldi fólks frá Reykjavík með Dettifossi og fólk kom með skipinu Erni frá Akureyri. Úr nærsveitum kom fólk með smábátum.

Kirkjan er um 35 metra löng og 12 metra breið. Hún tekur um 400 manns í sæti. Turninn er um 30 metra hár og tvær miklar klukkur.

Heimildir: Bókin Siglufjarðarkirkja, Afmælisrit gefið út af sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju árið 1982.