Siglufjarðarflugvelli bjargað – opnar sem lendingarstaður

Eftir nokkra ára viðræður milli Ríksins, Fjallabyggðar, Samgöngustofu og ISAVIA þá hefur Siglufjarðarflugvöllur nú fengið heimild sem lendingarstaður. Þetta staðfestir Samgöngustofa og bæjarstjóri Fjallabyggðar við vefinn. Allt frá haustinu 2014 hafa staðið yfir viðræður um að enduropna völlinn sem lendingarstað og nú hefur þetta loksins skilað sér, en bæjarstjóri og bæjarstjórn Fjallabyggðar hafa lagt mikla áherslu á að halda vellinum opnun fyrir ferðaþjónustu og sjúkraflug. Fjallabyggð er enn að semja um að verða eigandi flugvallarins og mannvirkja, en það stendur til bóta á næstu vikum, samkvæmt upplýsingum sem vefurinn fékk hjá Gunnari Birgissyni bæjarstjóra Fjallabyggðar.

Ástæða lokunar vallarins árið 2014 var sögð í nafni hagræðing­ar og sparnaðar.

Endurbætur á flugstöðinni hófust í maí 2017 og umsókn um að opna völlinn sem lendingarstað var send um haustið 2017.

Í byrjun júlí 2018 hófust framkvæmdir á flugbrautinni sjálfri og málin hafa gengið hratt eftir að þeirri vinnu lauk.

Þyrlur hafa þó reglulega lent á vellinum síðustu árin, enda er skíðaferðamennska stunduð á Tröllaskaga yfir vetrarmánuðina. Þá hefur verið flogið reglulega með stálþyl vegna framkvæmda við uppsetningu snjóflóðastoðvirkja í Hafnarhyrnu fyrir ofna Siglufjörð frá flugvellinum.