Fyrsti opnunardagur Siglógolf á Siglufirði verður laugardagurinn 3. júní næstkomandi. Völlurinn kemur í heild ágætlega undan vetri. Brautir, teigar og röffsvæði eru í fínu ásigkomulagi og er ljóst að brautir eru að verða þéttari með árunum. Flatirnar lentu í mismiklum skemmdum eftir klaka eða frostþurrk í vetur og vor, sáð var í allar flatir fyrir rúmri viku síðan og verður áfram unnið í að koma þeim í sem best ástand. Leikið verður á vetrarflöt fyrst um sinn á braut 1. og 8.

Rástímaskráning fer fram á Golfbox líkt og áður, þar þarf að skrá sig á hverjar níu holur í senn. Ætli kylfingur að leika 18 holur þarf hann að skrá báða rástímana þ.e.a.s. bæði fyrri 9 holurnar og svo seinni 9. Áætlaður leiktími fyrir 9 holur eru 2 klst og 10 mínutur.