Siglo Freeride fyrir skíða- og snjóbrettafólk

„Keppast niður fjöll Siglufjarðar á skíðum og snjóbrettum“
Siglo Freeride er þriggja daga keppni og helgarviðburður fyrir skíða- og snjóbrettafólk með áherslu á rennsli utan brauta. Keppnin verður haldin 12.-14. apríl á skíðasvæðinu
á Siglufirði og gefur stig inn á alþjóðlegan styrkleikalista. Á Siglufirði munu um 50 keppendur renna sér niður fjallshlíðar og því er mikil veisla í vændum fyrir áhugamenn
um rennsli utanbrauta. Helgin er ekki bara fyrir keppendur en gestir og áhorfendur eru hvattir til að koma í fjallið og renna sér með. Fjölbreytt dagskrá verður yfir alla
helgina, hvort sem er á skíðasvæðinu eða á götum Siglufjarðar. Sérstakt áhorfendasvæði verður miðpunktur fjallsins með plötusnúð, sætum, drykkjum og
veitingum. Á laugardagskvöldið verður ball á Rauðku þar sem Jói Pé & Króli og Úlfur Úlfur spila og halda uppi fjöri. Siglo Freeride á við allt skíða- og snjóbrettafólk sem vill
eiga skemmtilega helgi tileinkaðri útivist og hitta annað fólk sem rennir sér.

Siglo Freeride er hluti af alþjóðlegri mótaröð, Freeride World Tour. Valin er hentug fjallshlíð ofan við lyftur og fá keppendur eina tilraun til að sýna færni sína niður bratt
landslag. Dómarar gefa stig og meta íþróttamanninn eftir ýmsum þáttum tækni, stjórn og vel framkvæmdum stökkum. Aðferðin er frábrugðin fjallaskíðum að því leiti að
engin keppni er fólgin í uppleiðinni heldur er dæmt um hversu fær skíðamaður er á niðurleið. Keppt er í fullorðinsflokki og 14-18 ára. Keppnin á Siglufirði er tveggjastjörnu keppni af fimm. Á efsta stigi keppninnar eru bestu skíða- og snjóbrettamenn heims í greininni. Markmiðið er að halda viðburðinn árlega og styrkja skíðasenuna á Íslandi.

Fyrir þá sem vilja horfa á keppnina og skíða opnar skíðasvæðið klukkan 13:00 á föstudaginn og hefst undankeppni fullorðinna. Á laugardaginn opnar 10:00 í fjallinu og
stefnt er á úrslit fullorðinna auk keppni ungmenna. Á sunnudaginn er skíðasvæðið opið frá 10:00-16:00. Lagt er upp úr því að armbandshafar, keppendur og gestir eigi
frábæra helgi.
Áhugasamir eru hvattir til þess að kynna sér dagskrá helgarinnar. Hægt er að fá helgararmband sem kostar 12.500kr. Innifalið er þriggja daga skíðapassi á skíðasvæði
Siglufjarðar, tónleikar, bíósýning ásamt tilboðum og afsláttum! Keppendur fá slíkt innifalið í skráningargjöldum. Allar upplýsingar og skráning fyrir viðburðinn má finna á
TMPEXP.IS sem er staðarhaldari keppninnar á Íslandi. Einnig er hægt að kaupa miða eingöngu á tónleikana á laugardagskvöld á 5.500kr í forsölu. Má búast við að mikil
stemning verði á Siglufirði.

Sjáumst!