Fjórir iðkendur frá Ungmennafélaginu Glóa á Siglufirði tóku þátt á fyrra degi Aldursflokkamóts UMSE, en mótið hófst fimmtudaginn s.l. á Akureyri. Björgvin Daði fór hamförum í flokki 12-13 ára drengja og sigraði í öllum fjórum greinunum sem keppt var í og setti þar að auki siglfirsk aldursflokkamet í 60 metra og 600 metra hlaupunum, hinar greinarnar voru langstökk og hástökk. Hjörvar Már náði best 3. sæti í hástökki í sama flokki, en þar er hann á yngra ári. Elín Helga náði sér einnig í brons, það var í kúluvarpi 12 – 13 ára stúlkna þar sem hún er á yngra ári og Bjartmar Ari náði best 4. sæti í boltakasti, en hann er á yngra ári í flokki 10 – 11 ára. Bjartmar setti einnig siglfirkst aldursflokkamet í 400 metra hlaupi er hann hljóp á 1:26.75 og bætti met Jakobs Snæs frá árinu 2007 um rúmar 3 sek.
Á seinna degi Aldursflokkamóts UMSE kepptu 5 iðkendur fyrir Glóa og unnu til fernra verðlauna auk þess sem eitt siglfirskt aldursflokkamet féll. Björgvin Daði hélt uppteknum hætti að sanka að sér verðlaunum, silfur í spjóti og brons í kúlu. Patrekur Þórarinsson vann til gullverðlauna í hástökki og setti siglfirskt aldursflokkamet í flokki 15-16 ára þegar hann hoppaði yfir 1.56 metra. Elín Helga krækti sér í bronsverðlaun í spjótkasti. Hjörvar Már bætti sig í kúluvarpi en náði ekki á pall og Salka Heimisdóttir bætti sig bæði í spjóti og kúlu.
Heimild: umfgloi.123.is/