Siglfirðingar vilja bjóða hafnaraðstöðu vegna olíuvinnslu á Grænlandi

Ísland mun hagnast verulega þegar olíuvinnsla hefst við austurströnd Grænlands, en reiknað er með að það geti orðið á árunum upp úr 2020. Í fréttaviðtali við Hans Erik Lie jarðfræðing hjá breska olíufélaginu Dana Petroleum kom t.d. fram að þar sem engin þar til gerð samgöngumannvirki eru á austurströnd Grænlands, þ.e. hafnir, flugvellir eða vegir, muni Ísland að öllum líkindum verða notað sem þjónustumiðstöð fyrir olíuvinnsluna.

Atvinnu- og ferðamálanefnd Fjallabyggðar hefur verið að kanna hvort það sé raunhæfur kostur fyrir Fjallabyggð að slægjast eftir þessari þjónustu og er það mat okkar að svo sé. Nú er vinna í fullum gangi að kynna það sem það sem Fjallabyggð hefur uppá að bjóða fyrir þeim aðilum sem kæmu til með að þurfa nýta sér jafn góða hafnaraðstöðu og er á Siglufirði.

Fjallabyggð er landfræðilega vel staðsett þegar horft er á vegalengdir frá fyrirhuguðum olíuvinnslusvæðum við Grænland og því er góð og gild ástæða fyrir okkur að koma því vel til skila hvað við getum boðið uppá ef slíkar framkvæmdir fara af stað.

Siglufjörður hefur skjólgóða höfn með góða aðkomu fyrir stærri skip, mikill húsakostur sem áður hýsti verksmiðjur SVN, tankar fyrir olíur og önnur kemísk efni, góð heilsugæsla, lendingaraðstaða fyrir þyrlur og minni flugvélar, stutt vegalengd til Akureyrar þar sem stór flugvöllur er til staðar og gott sjúkrahús.

Texti frá Hjalta Gunnarssyni, Formanni atvinnu- og ferðamálanefndar Fjallabyggðar.