Siglfirðingar kveiktu ljósin á jólatrénu frá Kjarnaskógi

Jólatréð á Ráðhústorgi á Siglufirði var tendrað þann 1. desember síðastliðinn. Fjöldi manns sótti viðburðinn sem hófst með fallegum söng barnakórs Tónskólans á Tröllaskaga undir stjórn Þorsteins Sveinssonar. Anna Hulda Júlíusdóttir, djáknakandídat flutti hátíðarávarp og börn úr leikskólanum Leikskálum sungu við undirleik Guðmanns Sveinssonar, nokkur skemmtileg jólalög undir stjórn Elínar Bjargar Jónsdóttur og Vibekku Arnardóttur. Guðmundur Júní Skarphéðinsson, 5 ára nemandi leikskólans Leikskála var svo fenginn til að tendra ljósin á jólatrénu, sem sótt hafði verið í Kjarnaskóg við Akureyri. Að því loknu hengdu börnin kærleikshjörtu á jólatréð en hjörtun eru ljósmynd af andlitum þeirra um 150 barna og fullorðinna sem sótt hafa barnastarf Siglufjarðarkirkju það sem af er vetri.