Sex handteknir vegna slagsmála á Akureyri

Rétt fyrir klukkan 21:00 í gærkveldi var lögregla kölluð til að Bláu könnunni, kaffihúsi í miðbæ Akureyrar, vegna slagsmála sem þar brutust út fyrir framan kaffhúsið.
Er lögregla kom á vettvang voru slagsmálin yfirstaðin en sjónarvottar bentu á þátttakendur átakanna. Voru 6 aðilar handteknir og færðir í fangageymslu en einn var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku SAk þar sem hann gekkst undir aðgerð vegna sára sinna. Hlaut hann áverkana eftir að hafa farið í gegnum rúðu þar sem hann skarst illa.
Rannsókn málsins verður haldið áfram í dag þar sem skýrslur verða teknar af þeim handteknu.