Sérlega hlýr októbermánuður

Októbermánuður var sérlega hlýr og víða á landinu sá hlýjasti síðan mælingar Veðurstofu Íslands hófust. Tíð var mjög hagstæð um mestallt land, en rigningar þóttu ganga úr hófi sums staðar á Suður- og Vesturlandi. Á nokkrum stöðvum var þetta úrkomusamasti októbermánuður sem vitað er um. Mánuðurinn var alveg frostlaus víða við strendur landsins og telst það óvenjulegt.

Á Akureyri var meðalhitinn 7,5 stig, 4,5 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 4,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.  Þetta er einnig næsthlýjasti október á Akureyri, heldur hlýrra var í október 1946.

Að tiltölu var hlýjast inn til landsins um landið norðan- og austanvert, jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Nautabúi í Skagafirði, við Upptyppinga, Mývatn og í Möðrudal. Á þessum stöðvum var hiti +4,8 stigum ofan meðallags.

Úrkoma var óvenjumikil um landið sunnan- og vestanvert og á allmörgum stöðvum meiri en áður er vitað um í októbermánuði. Aftur á móti var hún í minna lagi víða norðaustan og austanlands – og á nokkrum stöðvum sú minnsta sem um er getið í október.

Á Akureyri mældist úrkoma nú 19,6 mm, þriðjungur meðalúrkomu og minnsta úrkoma í október síðan 1993, en þá mældist úrkoma í október aðeins 4,0 mm á Akureyri. Á Akureyri mældist úrkoma 1 mm eða meiri fimm daga mánaðarins, sex færri en í meðalmánuði.

Sólskinsstundir hafa ekki mælst svo fáar í október síðan 1969. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 58,5, 7 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 og tíu fleiri en að meðaltali í október síðustu tíu ár.

Heimild: vedur.is