Segir nei við auknum rútuakstri með skólabörn

Ég segi NEI við auknum rútuakstri með skólabörn – Kjósandi góður, ef þú kýst eftir þinni sannfæringu þá kýstu rétt.

Mig langar að deila reynslu minni af því að vera með börn í grunnskóla bæði fyrir og eftir daga skólaaksturs.  Sonur minn stundaði nám á Sigló í sínu nærumhverfi og þurfti aldrei að fara í rútu á milli staða. Hann naut í botn nálægðarinnar við skólann og tómstunda sem voru margvíslegar en nóg var í boði. Eftir grunnskóla stundaði hann nám við Menntaskólann á Akureyri og best ég veit átti hann ekki í félagslegum erfiðleikum þar nema síður sé.

Hitt barnið mitt fer samkennslu í þriðja bekk sem gekk mjög vel og aldrei heyrði ég á það minnst að samkennslan væri einhver þrándur í götu. Enda er nám í grunnskólanum hér einstaklingsmiðað fyrir alla nemendur og er því auðvelt að samkenna árgöngum. Í sama árgangi eru alls ekki allir að vinna í sama námsefni á sama tíma. Margir skólar nýta sér samkennslu sem tækifæri þó þess þurfi ekki  sérstaklega vegna fámennra árganga. Síðan koma rútuferðirnar hjá yngra barninu og þá byrjar martröðin, barnið var bílveikt nánast hvern einasta dag.  Bílveiki hjá mínu barni er ekki einsdæmi.  Að þurfa að senda barnið sitt í rútu vitandi af bullandi kvíða hjá því fyrir rútuferðinni, vitandi að það tekur barnið nokkra klukkutíma að jafna sig eftir hverja rútuferð, sjá það svo koma heim grátt og guggið af vanlíðan er eitthvað sem mig langar ekki að neitt barn gangi í gegnum.

Ég segi því NEI við auknum rútuakstri með skólabörn – Barnið mitt ferðaðist milli bæjarkjarna bílveikt í þrjú ár. Er það boðlegt?

Kosturinn við að búa  úti á landi er að maður hefur það sem maður þarf innan seilingar. Það eru forréttindi að geta gengið í skólann og til vinnu. Þannig þarf ekki að nota dýrmætan tíma í að ferðast á milli staða í bíl eða strætó. Það er mín skoðun að börnin eigi að vera í sínu nærumhverfi sem lengst, tengjast því og öðlast öryggi áður en það er farið að sendast með þau á milli staða. Því tel ég það skynsamlegt að yngstu bekkjunum sé kennt í sitthvorum bæjarkjarnanum.

Ég vil taka það skýrt fram að ég á ekki persónulegra hagsmuna að gæta þar sem mitt barn er að ljúka grunnskólagöngu sinni hér og er stefnan sett á Akureyri. Hinsvegar get ég auðveldlega sett mig í spor þeirra sem þurfa að bjóða sínum börnum upp á rútuakstur í fimm skólaár. Og þó sumir hafi lýst yfir þeirri skoðun sinni að þetta hafi ekkert með Siglufjörð eða Ólafsfjörð að gera þá er staðreyndin sú að það eru yngstu börnin frá Ólafsfirði sem lenda verst út úr þessum auknu rútuferðum. Börnin Siglufjarðarmegin geta stundað skóla hér á Sigló til 11 ára aldurs.

Hvernig sem kosningarnar á morgun fara þá vona ég að bæjaryfirvöld láti skynsemina ráða um að sameinast um málamiðlun til að leysa þetta mál þannig að sátt náist í samfélaginu og við getum öll farið að hlakka til sumarsins,  komandi sveitarstjórnarkosninga auk skólabyrjunar næsta haust.

Bestu kveðjur,

Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir