Sautján brautskráðir frá MTR

Sautján nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga um helgina og hafa þá 160 lokið námi á þeim sjö árum sem skólinn hefur starfað. Sjö þeirra sem brautskráðust voru fjarnemar og voru þeir allir viðstaddir utan einn. Þetta er stærsti fjarnemahópur sem skólinn hefur útskrifað. Á vorönn voru nemendur við skólann um 340 og hafa aldrei verið fleiri. Þar af voru fjarnemar um 240. Átta nemendur útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, tveir af íþróttabraut – íþróttasviði, tveir af náttúruvísindabraut, tveir af listabraut – myndlistarsviði og tónlistarsviði, tveir af starfsbraut og einn lauk viðbót við starfsnám til stúdentsprófs. Lára Stefánsdóttir skólameistari flutti ávarp og ræddi hraðar breytingar á vinnumarkaði.

Tveir nýstúdentar fluttu ávarp, Erla Marý Sigurpálsdóttir, fyrir hönd staðnema og Hafrún Eva Kristjánsdóttir fyrir hönd fjarnema.  Sérstök verðlaun fyrir afburða námsárangur hlaut Erla Marý Sigurpálsdóttir sem var dúx skólans með 9,17 í meðaleinkunn. Hún fékk einnig verðlaun fyrir árangur í dönsku, ensku, íþróttum og stærðfræði.

Texti og mynd: mtr.is