Sandurinn fauk af Strandblakvellinum á Sigló

Nýr strandblakvöllur á Siglufirði er fokinn út í veður og vind. Um mikið fjárhagslegt tjón er að ræða því sandurinn á völlinn kom frá Reykjavík og flutningskostnaðurinn því mikill.  Ekki voru gerðar ráðstafanir fyrir því að vindasamt yrði á Siglufirði og var því völlurinn ekki hulinn með tjaldi yfir veturinn.

Undanfarna daga hefur verið mikið sunnan rok og hlýindi á Siglufirði. Þetta hefur gert það að verkum að sandurinn á strandblakvelli bæjarins er meira og minna fokinn í burtu eða um 50 rúmmetrar.

„Það er svona þrír fjórðu af vellinum farnir upp úr gryfjunni af sandinum, sem við þurfum náttúrulega að bæta á sem fyrst,“ segir Gunnlaugur Guðleifsson, strandblakari á Siglufirði.

Blakáhugi er mikill á Tröllaskaga og hefur völlurinnn, sem var settur upp í fyrrasumar, verið mikið notaður bæði af heimamönnum og ferðafólki. Það er því mikill missir að hvíta skeljasandinum sem var sóttur sérstaklega til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði. Að sögn Gunnlaugs ætla blakhópar staðarins að reyna að fjármagna kaup á nýjum sandi sem fyrst enda öldungarmótið í blaki framundan í lok apríl og hafa 146 lið skráð sig til leiks. Hann reiknar með að þegar nýr sandur verður kominn á völlinn verði reynt að tryggja að viðlíka sandfok endurtaki sig ekki. „Vindur á Siglufirði er mjög óvanalegt fyrirbæri þannig aðstæður eru mjög skrýtnar, mikill hiti og mikill vindur í marga daga sem skapaði þessar aðstæður. Að sjálfsögðu munum við grípa til einhverra ráðstafana, að kaupa segl og breiða yfir völlinn.“

Heimild: Rúv.is

Ljósmynd: Héðinsfjörður.is / Norðurland.net

Strandblak á Sigló