Gengið hefur verið frá samningi milli Fjallabyggðar og Björgunarbátasjóðs Siglufjarðar um fjármögnun á nýju björgunarskipi fyrir Siglufjörð.
Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkti samninginn á 774. fundi sínum þann 3. janúar 2023. Það voru þau Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri og Magnús Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Stráka sem undirrituðu samninginn í dag.
Samkomulaginu er ætlað að tryggja fjármögnun á nýju björgunarskipi á Siglufirði sem mun koma í stað björgunarskipsins Sigurvins sem nú er orðið 34 ára gamalt. Starfssvæði nýja Sigurvins mun ná frá Tjörnesi í austri til Skagatáar í vestri.
Nýtt björgunarskip verður mun öflugra en það gamla, sem styttir viðbragðstíma til muna og stækkar um leið það svæði sem björgunarskipið getur sinnt. Með kaupum á nýju og öflugra björgunarskipi er öryggi sjófarenda betur tryggt og björgunarsvæði á hafsvæðinu úti fyrir norðurlandi styrkt til muna.
Skipið er búið öllum fullkomnustu siglingatækjum sem völ er á. Heildarlengd þess er um 17 metrar. Ganghraði nær allt að 38 mílum og ristir skipið 0,8 metra. Skipið er m.a. búið hliðarskrúfu sem tryggir afburða stjórnhæfni. Jafnframt er um borð krani til að ná fólki úr sjó, öflug slökkvidæla og brunastútur.
Slysavarnafélagið Landsbjörg verður eigandi björgunarskipsins, en Björgunarbátasjóður Siglufjarðar verður útgerðaraðili hins nýja björgunarskips sem staðsett verður með heimahöfn á Siglufirði.
Ríkissjóður Íslands mun fjármagna helminginn af kaupverðinu en Björgunarbátasjóður Siglufjarðar og Slysavarnafélagið Landsbjörg fjármagna hinn helminginn. Fjallabyggð leggur Björgunarbátasjóði til kr. 5 milljónir á ári, næstu 6 ár, til þess að fjármagna kaup á björgunarskipinu. Um er að ræða heildarfjárframlag að upphæð 30 milljónir króna.
Björgunarbátasjóður Siglufjarðar mun annast rekstur björgunarskipsins. Rekstrartekjur af skipinu renna til Björgunarbátasjóðs Siglufjarðar og ber það jafnframt allan rekstrarkostnað þess.
Samkomulagið gildir frá árinu 2023 til og með ársins 2028.
Texti og mynd: Fjallabyggð.is