Samherji byggir nýja og fullkomnari landvinnslu á Dalvík

Samherji hefur undirritað lóðaleigusamning við Dalvíkurbyggð um 23.000 fermetra lóð undir nýtt húsnæði landvinnslu félagsins á Dalvík. Með samningnum er stigið stórt skref í átt að nýrri og fullkomnari vinnslu Samherja á Dalvík. Flutningur starfsemi Samherja á hafnarsvæðið skapar jafnframt möguleika fyrir bæjarfélagið að skipuleggja svæðið með öðrum hætti til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Áætluð fjárfesting Samherja í húsnæði og búnaði eru um 3.500 milljónir króna. Það eru AVH arkitektar á Akureyri sem sjá um hönnun nýja hússins.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, opinberaði þessi áform fyrirtækisins á fjölmennum hátíðarfundi með starfsfólki Samherja á Dalvík og forsvarsmönnum Dalvíkurbyggðar síðdegis í gær.

Í ræðu sinni sagði hann gaman að geta þess að hafi Samherji tekið á móti nýjum Björgúlfi EA í Tyrklandi. Nýja skipið muni leysa hinn 40 ára gamla nafna sinn af hólmi og komi til heimahafnar á Dalvík í byrjun júní.

„Með nýju vinnslunni hér og smíði Björgúlfs EA er Samherji að fjárfesta í veiðum og vinnslu á Dalvík fyrir a.m.k. 6.000 milljónir króna. Heildarfjárfesting Samherja í veiðum og vinnslu í Eyjafirði verður því um 11.000 milljónir króna á einungis þremur árum,“ sagði Þorsteinn Már.

Ákvörðun um byggingu nýrrar landvinnslu Samherja á Dalvík hefur átt sér langan aðdraganda. Samherji fékk úthlutað lóð við hlið núverandi vinnslu, því upphaflega stóð til að byggja við núverandi húsnæði. Ennfremur hefur staðið til hjá Dalvíkurbyggð að hefja framkvæmdir og landfyllingu við hafnarsvæðið, óháð áætlunum Samherja, m.a. til að mæta mikilli fjölgun ferðamanna og tengdri starfsemi.

Vinna við undirbúning ofangreindrar ákvörðunar hefur verið í nánu samstarfi við Dalvíkurbyggð. Mikil sátt ríkir því um ákvörðunina sem báðir aðilar telja til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Nýja staðsetningin er til þess fallin að auka öryggi í umferð og færa þungaflutninga úr alfaraleið í gegnum bæinn.

Heimild: samherji.is

Heimild: Samherji, Dalvíkurbyggð