Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að starfa saman að því að tryggja brotaþolum kynferðisofbeldis viðeigandi stuðning hjá sálfræðingi að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu. Jafnframt að stuðla að aukinni samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins um þjónustu vegna kynferðisofbeldis í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi.
Í aðgerðaáætlun um bætta meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, fyrir árin 2018-2022, segir m.a. að tryggja þurfi brotaþolum viðeigandi stuðning innan kerfisins, s.s. sálfræðimeðferð innan heilbrigðiskerfisins eða önnur úrræði óháð búsetu og efnahag, m.a. eftir skýrslutöku hjá lögreglu. Vinnuhópur heilbrigðisráðherra um samræmingu verklags vegna kynferðisofbeldis kynnir niðurstöður vinnu sinnar innan skamms.Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að styrkja reglubundið samráð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og starfsmanna neyðarmóttöku og áfallateymis LSH um þjónustu við brotaþola kynferðisofbeldis. Samráðið snýst m.a. um hvernig lögregla skuli standa að tilvísun sem tryggir brotaþolum stuðningsviðtal sálfræðings að lokinni skýrslutöku og tryggja miðlun upplýsinga um meðferð mála innan réttarvörslukerfisins til brotaþola.
Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri mun gera úttekt á árangri af samstarfinu. Tekin verða viðtöl við einstaklinga sem leggja fram kæru hjá lögreglunni vegna kynferðislegs ofbeldis til að skoða reynslu þeirra af skýrslutöku hjá lögreglu og stuðningsviðtali hjá sálfræðingi í kjölfarið. Einnig verður gerð úttekt á reynslu lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks af því aukna samstarfi sem hér er lýst.