Sævar Pétursson ráðinn framkvæmdastjóri KA

Í dag var gengið frá ráðningu Sævars Péturssonar í starf framkvæmdastjóra KA, en eins og fram hefur komið hefur Gunnar Jónsson sagt því starfi lausu. Gunnar mun láta af störfum um áramót en Sævar kemur til starfa þann 1. mars. Í janúar og febrúar mun Óskar Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA, brúa bilið og jafnframt gegna starfi framkvæmdastjóra félagsins.

Sævar Pétursson er 37 ára gamall. Hann er viðskiptafræðingur að mennt og nam í framhaldinu íþróttafræði á Nýja-Sjálandi. Hann stýrði um tíma rekstri Sporthússins og Baðhússins í Reykjavík áður en hann tók að sér starf íþróttafulltrúa í Sveitarfélaginu Skagafirði árin 2009 og 2010. Undangengið ár hefur hann gegnt starfi verkefnastjóra atvinnumála hjá Akureyrarbæ, auk þess að þjálfa 4. flokk karla í knattspyrnu hjá KA. Eiginkona Sævars er Sunna Svansdóttir og eiga þau fjögur börn.