Sæluvika í Skagafirði

Á morgun sunnudaginn 30. apríl verður formleg setning Sæluviku Skagfirðinga í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Sæluvikan er gamall menningarviðburður en upphaflega kallaðist vikan Sýslufundarvika og þá kom sýslunefnd Skagafjarðarsýslu saman til fundarhalda. Það er fjölbreytt dagskrá framundan í dag og næstu daga enda um flotta lista- og menningarhátíð að ræða.

Dagskrá næstu daga:

Laugardagur:

Lionsklúbbarnir í Skagafirði halda Kótilettukvöld í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki í dag, laugardaginn 29. apríl, kl.20:00 – Húsið opnar kl. 19:30.  Safnað er fyrir Skynörvunarherbergi, í Iðju-dagþjónustu og hæfingu, fyrir fatlað fólk. Skemmtiatriði á skagfirska vísu. Veislustjóri er Agnar Gunnarsson frá Miklabæ.

Tónleikar í Hóladómkirkju. Fram koma Skagfirskir strengir auk gesta frá strengjadeild Tónlistarskólans á Akranesi. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem er haldin annað hvert ár. Verkefnið er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, menningarráða og fleiri aðila á landsbyggðinni.

Sunnudagur:

Opnunarhátíð Sæluviku Skagfirðinga verður sunnudaginn 30. apríl og verður haldin í Safnahúsi Skagfirðinga kl. 13:00. Ávarp – afhending Samfélagsverðlauna Skagafjarðar 2017 – tónlistaratriði – úrslit í Vísnakeppni kynnt.

Æskan og hesturinn – samstarfssýning hestamannafélaganna á Norðurlandi þar sem unga fólkið í viðkomandi félögum er með sýningaratriði á hestum. Sýningin er opin öllum og aðgangur er ókeypis.

Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir „Beint í æð“ eftir Ray Cooney. Leikstjóri er Jóel Sæmundsson. Íslensk heimfærsla verksins er eftir Gísla Rúnar Jónsson

Mánudagur:

Kirkjukór Sauðárkrókskirkju syngur undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar organista. Gestasöngvari er Hugrún Sif Hallgrímsdóttir. Aðgangseyrir 2.000 kr.