Rúta sem var á Norðurleið valt á veginum skammt sunnan við Blönduós snemma í morgun. Farþegar voru á þriðja tug og urðu einhver slys á fólki. Þjóðvegur 1 var lokaður á tímabili fyrir stóra bíla en minni bílum var stýrt framhjá rútunni.

Sjö manns voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar og sjúkraflugi á Landspítalann í Reykjavík. Aðrir voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Tildrög slyssins eru til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi vestra og Rannsóknarnefnd samgönguslysa.