Rússnesk kvikmyndavika – Bíósýning á Síldarminjasafninu

Sjötta rússneska kvikmyndavikan á Íslandi er haldin dagana 13.–25. september 2018. Tvær myndir verða sýndar í Gránu, bræðsluhúsi Síldarminjasafnsins, föstudaginn 21. september kl. 20:00.

Sýningin hefst á 70 ára gamalli heimildamynd, sem fannst á Ríkisþjóðskjalasafni kvikmynda og ljósmynda í Rússlandi. Síldveiði við Íslandsstrendur er aðeins 19 mín. löng – en þó gerist svo margt á tjaldinu. Frásagnartextinn í myndinni hefur verið þýddur á íslensku.

Því næst verður kvikmyndin Netið sýnd. Hún er tekin upp í fiskiþorpi við Hvítahafsstrendur og sýnir íbúa Norður-Rússlands í heimspekilegri dæmisögu um ást. Ungur maður kemur í þorp við Hvítahafið í leit að stúlku sem flýði borgina án þess að kveðja. Einn íbúa þorpsins, gamall karl, vísar honum veginn. Hvorki ungi maðurinn né sá gamli geta ímyndað sér hvaða þrautir bíða á leið þeirra – en þó einkum þegar henni er lokið.

Allir velkomnir og ókeypis aðgangur!

Heimild: sild.is