Athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson hefur óskað eftir afstöðu Fjallabyggðar og hafnarstjórnar Fjallabyggðar til að taka upp viðræður við Selvík ehf. um endurbætur á Selvíkurvita sem stendur Selvíkurnefi við Siglufjörð. Vitinn var byggður árið 1930 og er gamall innsiglingarviti fyrir Siglufjörð og gegndi mikilvægu hlutverki hinnar fjölförnu síldarhafnar sem Siglufjörður var. Vitinn er á vinsælu göngusvæði við Siglufjörð og koma þangað töluvert af ferðamönnum á ári hverju.

Árið 2011 átti fyrrum bæjarstjóri Fjallabyggðar í viðræðum við Siglingastofnun um viðhald og eignarhald á Selvíkurnefsvita.
Eftir þær viðræður var ljóst að Fjallabyggð hafði á þeim tíma fullt umráð og eignarhald yfir vitanum sem þarfnaðist mikils viðhalds og að Siglingastofnun myndi ekki koma að endurbótum.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar hafði áður lagt fram viðgerðaráætlun vegna vitans í lok árs 2008.