Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði, er maður ársins í atvinnulífinu á Íslandi árið 2014 að mati Frjálsrar verslunar. Hann hefur fjárfest fyrir á fjórða milljarð í heimabyggð sinni á Siglufirði í líftækni og ferðaþjónustu, að mestu fyrir eigið fé sem hann hefur flutt til landsins og er afrakstur af erlendri starfsemi hans í sjávarútvegi og fiskeldi.
Hann fær viðurkenninguna í veglegu hófi sem Frjáls verslun heldur honum til heiðurs í dag á Hótel Sögu, að því er segir í tilkynningu.
Fram kemur, að í mati sínu hafi dómnefndin lagt til grundvallar stórhug og framsæknar fjárfestingar hans í siglfirsku samfélagi sem tengjast fjárfestingarstefnu um sameiginleg verðmæti og samfélagslega ábyrgð til góðs fyrir íslenskt samfélag, þekkingu og menningu.
Þetta er í 27 sinn sem Frjáls verslun útnefnir mann ársins í atvinnulífinu.
Mbl.is greinir frá þessu, nánar má lesa þar.