Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest að veiðitímabil rjúpu í ár. Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á tímabili sem ákveðið er sérstaklega innan hvers veiðisvæðis:

Norðausturland          25. október – 19. nóvember

Norðvesturland          25. október – 19. nóvember

Austurland                  25. október – 22. desember

Suðurland                   25. október – 19. nóvember

Vesturland                  25. október – 19. nóvember

Vestfirðir                     25. október – 26. nóvember

 

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra.

Ráðherra undirritað í september stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu og er það í fyrsta skipti sem slík áætlun er gefin út fyrir dýrastofn á Íslandi. Áætlunin felur í sér nýtt kerfi veiðistjórnunar þar sem landinu er skipt í sex hluta og veiðistjórnunin er svæðisbundin. Einnig hafa verið þróuð ný stofnlíkön sem munu reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils á hverju svæði.

Stjórnunar- og verndarætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Þá naut samstarfshópurinn aðstoðar frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.

Stefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins, líkt og annarra auðlinda, skuli vera sjálfbær. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu. Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Verndarsvæði verður á SV-landi líkt og undanfarin ár, en vinna er hafin við endurskoðun þess.

Er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.