Ríkisstjórnin styrkir skákfélagið Hrókinn

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita skákfélaginu Hróknum þriggja milljóna kr. styrk af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar í tilefni af 20 ára afmæli félagsins árið 2018 og verkefnum sem tengjast þeim tímamótum.

Skákfélagið Hrókurinn var stofnað 12. september 1998 og hefur starfsemi félagsins miðað að því að hvetja til skákiðkunar. Félagið hefur heimsótt nær öll sveitarfélög á landinu á starfstíma sínum og efnt til fjölda skákviðburða á mennta- og heilbrigðisstofnunum, dvalarheimilum aldraðra, í fangelsum og á fleiri stöðum. Meðal annars hafa fulltrúar Hróksins heimsótt Barnaspítala Hringsins vikulega undanfarin 15 ár. Þá hefur félagið haldið úti öflugu starfi í þágu fólks með geðraskanir. Sérstök áhersla hefur verið lögð á það í starfi Hróksins að öll íslensk börn fái að kynnast heimi skáklistarinnar og hefur Hrókurinn m.a. unnið að verkefnum með Rauða krossinum, Fatimusjóði, UNICEF, SOS-barnaþorpum, Hjálparstarfi kirkjunnar og Barnaheillum. Þá hefur félagið frá árinu 2003 unnið að útbreiðslu skáklistarinnar á Grænlandi og að auknum samskiptum þjóðanna á sem flestum sviðum samfélagsins. Í því samstarfi hefur skákfélagið komið að margvíslegum samfélagslegum verkefnum á Grænlandi.