Innanríkisráðuneytið hefur svarað erindi Sveitarfélagsins Skagafjarðar er varðar styrk fyrir áætlunarflug til Sauðárkróks. Í bréfinu segir:”Staða ríkissjóðs er þröng og er ekki gert ráð fyrir að áætlunarflugið verði styrkt af ríkinu, hvorki á núgildandi samgönguáætlun né fjárlögum. Því miður eru við þessar aðstæður ekki forsendur til þess að verða við beiðni yðar um frekari stuðning á þessu stigi.”

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á ríkið að endurskoða afstöðu sína og tryggja að áfram verði flogið á milli Skagafjarðar og Reykjavíkur og styrkja þar með stoðir hinna dreifðu byggða landsins í anda þeirra byggðarstefnu sem boðuð hefur verið.