Ríkið greiðir 259 milljónir í skaðabætur vegna Héðinsfjarðarganga

Á Vísir.is kom fram í gær að íslenska ríkið hafi verið dæmt til að greiða Íslenskum aðalverktökum hf. og NCC International AS tæpar 259 milljónir króna með dráttarvöxtum frá 10. ágúst 2003 til 10. janúar 2007 í skaðabætur vegna útboðs Vegagerðarinnar um gerð Héðinsfjarðarganga. Með niðurstöðunni snýr Hæstiréttur við niðurstöðu Héraðsdóms.

Tilboðum hafnað

Vegagerðin efndi til útboðs á gerð Héðinsfjarðarganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar árið 2003. Íslenskir aðalverktakar hf. og NCC International AS áttu þá lægsta tilboðið í verkið. Ríkisstjórnin hætti hins vegar við framkvæmdirnar vegna þenslu í þjóðfélaginu. Því neyddist Vegagerðin til að hafna öllum tilboðunum.

Þremur árum síðar var aftur ákveðið að gera göngin og Vegagerðin bauð verkið út aftur. Þá áttu Metrostav a.s. og Háfell ehf. lægsta tilboðið. Framkvæmdum við göngin lauk að fullu árið 2011.

Skaðabótaskylda

Íslenskir aðalverktakar hf. og NCC International AS misstu því af framkvæmdunum við Héðinsfjarðargöng. Fyrirtækin töldu að það hefði valdið þeim tjóni og höfðuðu skaðabótamál á hendur ríkinu. Árið 2005 komst Hæstiréttur að því að ríkið bæri skaðabótaskyldu vegna atvikanna en í dag fékkst endanleg niðurstaða um hve háar bæturnar eiga að vera.

Fyrirtækin kröfðust aðallega tæplega 479 milljóna króna. Sú krafa byggði á útboðsgögnum útboðsins árið 2003. Hæstiréttur féllst ekki á þessa kröfu enda sýndu útreikningar matsmanna að hún stóðst ekki. Hins vegar var fallist á varakröfu fyrirtækjanna sem hljóðaði upp á tæpar 260 milljónir. Hún byggði á matsgerð matsmanna.

Upphæðin tekur mið af verklaunum fyrirtækjanna fyrir verkið ef það hefði verið framkvæmt og kostnaði sem fyrirtækin hefðu borið vegna þess. Fyrirtækin voru ekki látin bera hallann af því að hafa ekki gripið til sérstakra aðgerða til að takmarka tjón sitt.

Dómurinn

Héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækin hefðu ekki lagt fram öll gögn sem tiltæk voru og því ekki sannað að þau hefðu í raun orðið fyrir tjóni við að missa af framkvæmdunum við Héðinsfjarðargöng.

Heimild: www.visir.is