Reykjavík 225 ára í dag

Reykjavík er 225 ára í dag, 18. ágúst. Saga borgarinnar nær þó mun lengra aftur, enda nam Ingólfur Arnarson land í víkinni um 870. Sagan segir að þar hafi öndvegissúlur hans rekið á land, en líklegra er þó talið að hann hafi valið Reykjavík til búsetu vegna ótvíræðra landkosta. Meðal þeirra var gott skipalægi, nægt undirlendi, rekafjörur, mýrar til rauðablásturs og mótekju, heitt vatn í jörðu, gjöful fiskimið, eggver og selalátur í eyjum, ágætt beitiland, akureyjar og laxveiði í ám.

Reykjavík fékk kaupstaðaréttindi árið 1786 í kjölfar þess að einokunarverslun var afnumin í landinu. Á nítjándu öld myndaðist þorp í Víkinni, þyrpingar lítilla húsa eða kofa sjómanna, og í áranna rás varð þorpið að bæ og borg, en á höfuðborgarsvæðinu búa nú um 200.000 manns eða tveir þriðju hluti landsmanna.