Miðvikudaginn 24. júlí mættu 14 leikmenn KF til leiks á Rey-cup knattspyrnumótið ásamt fríðu föruneyti. Mótið er alþjóðlegt mót sem fram fer í Laugardalnum í Reykjavík. Setning mótsins var á miðvikudeginum en síðan var spiluð knattspyrna fimmtudag til sunnudags ásamt því að gera fullt af hlutum milli leikja. Strákarnir stóðu sig gríðarlega vel innanvallar og fengu allir leikmenn að spila mikið. Spilaðir voru fimm leikir í riðlakeppninni sem gengu spilalega séð misvel en þeir unnust þó allir. Á sunnudeginum mætti liðið BÍ/Bolungarvík í úrslitaleik. Leikurinn var gríðarlega spennandi en að lokum unnuKF strákarnir 3-2 sigur og mikil fagnaðarlæti brutust út meðal leikmanna og fylgdarliðs.

Á milli þess sem knattspyrna var spiluð þá var ýmislegt brallað. Á fimmtudeginum var farið í laser-tag og í Skemmtigarðinn í boði Sparisjóðs Siglufjarðar (SPS) og vilja strákarnir koma sérstöku þakklæti til SPS fyrir styrkinn. Á föstudeginum var svo skellt sér í bíó þar sem drengirnir nutu þess að horfa á góða gamanmynd. Á laugardeginum var svo grillveisla og mótsball þar sem ýmsir hlutir gerðust, sem ekki má birta á prenti. Leikmenn vilja líka nota tækifærið og þakka Kobba bakara fyrir brauðið og Samkaup á Ólafsfirði fyrir ávextina sem voru ómetanlegir fyrir, milli og eftir leiki.

Ferðin í heild sinni heppnaðist gríðarlega vel og stóðu strákarnir sig mjög vel bæði innanvallar sem utan og voru sjálfum sér, félaginu og aðstandendum til sóma.

Kveðja, Óskar Þórðarson þjálfari.

 

kf-4.flokkur-lið

Texti og mynd:Innsent efni / Óskar Þórðarson.