Í dag, þriðjudaginn 30. júlí var regnbogagata opnuð á Dalvík í tilefni af því að hinsegin dagar í Reykjavík verða heiðursgestir Fiskidagsins mikla með þessu er sýndur stuðningur við mannréttindi og margbreytileika. Regnbogagatan nær yfir tvær götur Sunnutún og Martröð sem er meðfram sjónum.
Hinsegin dagar í Reykjavík verða heiðursgestir Fiskidagsins mikla 2019. Fulltrúi þeirra sér um Vináttukeðjuræðuna 2019 á setningu Fiskidagsins mikla föstudaginn 9. Ágúst kl 18.00, Pottþétt hinsegin tónlistardagskrá á sviðinu yfir Fiskidaginn mikla, umsjón Regína Ósk, fánar blakta við hún og fleira.
Kveðja frá formanni Hinsegin daga í Reykjavík
Á Hinsegin dögum 2019 minnumst við þess að 50 ár eru liðin frá Stonewall uppreisninni í Christoper-stræti í New York. Það var aðfaranótt 28. júní sem hinsegin fólk í New York fékk loks nóg af ofsóknum og áreiti lögreglu, snéri vörn í sókn og uppgötvaði samtakamáttinn. Réttindabarátta hinsegin fólks var hafin fyrir alvöru og grunnurinn lagður að pride-hátíðahöldum sem í dag þekkjast víða um heim.
En ekki nóg með það. Í ár fögnum við einnig 20 ára óslitinni sögu hinsegin hátíðahalda í Reykjavík. Það var nefnilega árið 1999 sem Samtökin ʼ78 stóðu fyrir Hinsegin helgi í Reykjavík – einmitt til að minnast þess að þá voru 30 ár frá uppþotunum í Christopher-stræti. Um 1.500 gestir komu saman á Ingólfstorgi laugardaginn 26. júní og strax í kjölfarið var ákveðið að slík hátíðahöld þyrftu að verða að árlegum viðburði hér í borg. Ári síðar, þegar fyrsta gleðigangan var gengin, voru gestirnir tólf þúsund talsins.
Undanfarna tvo áratugi hafa Hinsegin dagar vaxið og dafnað og eru í dag ekki einungis ein fjölsóttasta hátíð landsins heldur einnig líklega alfjölmennasta pride-hátíð í heimi – sé miðað við höfðatölu. Af þessum árangri erum við að sjálfsögðu afar stolt en tökum um leið hlutverk okkar alvarlega og umgöngumst söguna af virðingu – því aðeins með því að vita hvaðan við komum finnum við leiðina þangað sem við ætlum – og við ætlum áfram. Áfram í átt að fullu jafnrétti – lagalegu og samfélagslegu. Við munum halda áfram að ræða, fræða og ögra en við ætlum líka að halda áfram að gleðjast.
Á þessu sannkallaða afmælisári er því mikið fagnaðarefni að skipuleggjendur Fiskidagsins mikla hafi kosið að gera Hinsegin dögum og hinsegin málefnum hátt undir höfði og staðfesta þannig stuðning sinn við mannréttindi og margbreytileika mannlífsins. Við þökkum þann heiður sem okkur er sýndur og vonum að Dalvík, sem og landið allt, skarti sínum skærustu regnbogalitunum í ágústmánuði.
Gleðilega hátíð! Gunnlaugur Bragi Björnsson formaður Hinsegin daga í Reykjavík.
Myndatexti: Friðrik Ómar Hjörleifsson Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla Katrín Sigurjónsdóttir Sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar Jón Arnar Sverrisson Símon Ellertsson Telma Ýr Óskarsdóttir Hulda Karen Pétursdóttir
Texti og myndir: Aðsend fréttatilkynning.