Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum þann 23. mars síðastliðinn að veita 170 m.kr. til Flugþróunarsjóðs á þessu ári og jafnframt er gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi 300 m.kr til ráðstöfunnar á ári næstu ár. Markmiðið með sjóðnum er að koma á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík.

Í skýrslu um millilandaflug kemur fram að bætt aðgengi að millilandaflugi á Norðurlandi og Austurlandi sem hefur mikla þýðingu fyrir vaxtar möguleika fyrirtækja og styður við fjölbreyttara atvinnulíf. Bætt aðgengi að millilandaflugi eykur búsetuskilyrði um land allt til muna.Lífsgæði heimamanna aukast með aukinni hagræðingu, sparnaði og fleiri ferðamöguleikum.
Þann 30. október síðastliðinn samþykkti ríkisstjórn Íslands að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja undirbúning að stofnun flugþróunarsjóðs og byggir samþykktin á tillögum nefndar sem forsætisráðherra skipaði um aukna möguleika í millilandaflugi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur á það áherslu að sjóðurinn skuli settur á laggirnar strax á þessu ári enda styðja markmið hans áhersluþætti í Vegvísi í ferðaþjónustu, sér í lagi þá áherslu sem lögð er á dreifingu ferðamanna.

Sjö manna stjórn verður yfir sjóðnum og skipar iðnaðar- og viðskiptaráðherra formann án tilnefningar. Aðrir stjórnarmenn verða tilnefndir af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Markaðsstofu Norðurlands, Austurbrú, Isavia og Íslandsstofu. Stjórnin ber ábyrgð á að úthlutanir sjóðsins samrýmist ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins og þá skal hún setja sér starfsreglur til samræmis við tillögur nefndarinnar.

Veglega skýrslu um millilandaflug á landsbyggðinni má lesa á vef Forsætisráðuneytis.