Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum þann 23. mars síðastliðinn að veita 170 m.kr. til Flugþróunarsjóðs á þessu ári og jafnframt er gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi 300 m.kr til ráðstöfunnar á ári næstu ár. Markmiðið með sjóðnum er að koma á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur á það áherslu að sjóðurinn skuli settur á laggirnar strax á þessu ári enda styðja markmið hans áhersluþætti í Vegvísi í ferðaþjónustu, sér í lagi þá áherslu sem lögð er á dreifingu ferðamanna.
Sjö manna stjórn verður yfir sjóðnum og skipar iðnaðar- og viðskiptaráðherra formann án tilnefningar. Aðrir stjórnarmenn verða tilnefndir af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Markaðsstofu Norðurlands, Austurbrú, Isavia og Íslandsstofu. Stjórnin ber ábyrgð á að úthlutanir sjóðsins samrýmist ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins og þá skal hún setja sér starfsreglur til samræmis við tillögur nefndarinnar.
Veglega skýrslu um millilandaflug á landsbyggðinni má lesa á vef Forsætisráðuneytis.