Rauðka fær úthlutaða lóð vegna Hótel Sunnu

Viðbót, 15.des: Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur einnig samþykkt að Rauðka ehf fái umrædda lóð á fundi þann 14. desember.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur nú þegar samþykkt að lóð verði skipulögð við smábátahöfnina og að Rauðka ehf. fái lóðina leigða. Skipulag hefur verið samþykkt fyrir lóðina.  Það er því útlit fyrir að Hótel Sunna verði að veruleika en Rauðka ehf. hyggst byggja hótel á umræddri lóð.

Frá fundi Bæjarráðs

Á fundi Bæjarráðs Fjallabyggðar þann 13. desember kemur eftirfarandi fram vegna þessa máls:

6.a   Bæjarráð hefur nú þegar samþykkt að lóð verði skipulögð á þessum stað.
6.b.  Bæjarráð hefur nú þegar samþykkt skipulag fyrir umrædda lóð svo koma megi umræddri hugmynd til framkvæmda.
6.c.  Bæjarráð hefur samþykkt að Rauðka ehf. fái umrædda lóð til leigu og afnota.
6.d.  Bæjarráð telur rétt að leggja til við bæjarstjórn neðanritað
6.e   Komi fram formleg ósk um byggingarleyfi á árinu 2012 og upplýsingar um framkvæmdartíma með byggingarnefndarteikningum verður ráðist í framkvæmdir við stækkun umræddrar lóðar á árinu.
6.f    Bæjarfélagið mun í samræmi við fyrri ákvarðanir úthluta lóðinni með formlegum hætti og innheimta gatnagerðargjald sem mun standa undir framkvæmdum við stækkun lóðarinnar og gera hana þannig úr garði að hún sé byggingarhæf.
6.g  Gatnagerðargjaldið mun standa undir umræddum framkvæmdum við undirbúningsframkvæmdir
6.h  Bæjarstjórn mun leggja til fjármagn til lagfæringar á umhverfi, vatnsveitu og fráveitu í áætlun fyrir árið 2013.
6.i    Bæjarráð leggur áherslu á að frekari framkvæmdir við skíðasvæði og golfvallarsvæði á Siglufirði er  bundið þessari framkvæmd, samanber tillögur, hugmyndir, óskir og áform Rauðku ehf.

Nánar um hótelið:

Um er að ræða byggingu á hóteli á suðurkanti smábátahafnarinnar á Siglufirði. Hótelið yrði byggt að hluta til á lóð félagsins, svokallaðri Sunnulóð. Um væri að ræða tvílyft hús í stíl við aðrar byggingar í nágrenninu. Núverandi hönnun gerir ráð fyrir 64 herbergjum, alls um 1.500 fermetra að grunnfleti í þremur álmum. Ein álman yrði byggð á uppfyllingu. Lítil smábátahöfn yrði fyrir innan hótelið.

Mynd: Siglo.is