Rauðakrossdeild Skagafjarðar með fyrirlestur um tölvunotkun

Rauðakrossdeild Skagafjarðar bauð öllum nemendum í 7. – 9. bekkjum í skólum Skagafjarðar og foreldrum þeirra upp á fyrirlestur um tölvunotkun. Ólína Freysteinsdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur heimsótti Árskóla og Grunnskólann austan Vatna í vikunni og mun hún heimsækja Varmahlíðarskóla í næsta mánuði.

Ólína talaði bæði til foreldra og nemenda og beindi sjónum að mikilvægi ábyrgrar netnotkunar. Hún ræddi við nemendur um ábyrga netnotkun, mikilvægi þess að vera gagnrýnin og meðvituð um æskileg samskipti þar sem og annarsstaðar. Einnig benti hún nemendum á gagnlegar leiðir til þess að setja sjálfum sér og öðrum mörk í samskiptum.

Ólína talaði til foreldrannna  um kosti og galla internetsins og ábyrgð þeirra og afskipti varðandi netnotkun. Mikilvægi þess að foreldrar kynni sér netnotkun barna sinna og setji þeim ákveðin mörk og sömuleiðis mikilvægi þess að leiðbeina börnum og vera til taks ef þau lenda í ógöngum eða misstíga sig á netinu. Einnig ræddi hún um jákvæðar hliðar netsamskipta t.d. í þeim tilvikum þar sem um félagslega einangrun er að ræða og þá ýmsu möguleika sem eru á ánægjulegum og uppbyggilegum samskiptum í gegnum netið.

Þetta fyrirmyndarframtak Rauðakrossdeildar Skagafjarðar er unnið í samvinnu við Sveitarfélagið Skagafjörð.