Rannsókn vegna hópslyssins í fullum gangi

Eins og fram hefur komið var hópslysaáætlun virkjuð kl. 14.15 hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra þann 1. júlí þar sem slys varð í hoppukastala sem staðsettur var við Skautahöllina á Akureyri.
Fyrstu upplýsingar til lögreglu voru að 108 börn væru í hoppukastalanum og að einhver hefðu fallið úr honum og að minnsta kosti eitt barn væri meðvitundarlaust.
Viðbragðsaðilar voru fljótir á vettvang og voru sjö einstaklingar fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri og einn af þeim síðar fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Fjórir til viðbótar leituðu á sjúkrahúsið til aðhlynningar.
Allir þeir sem leituðu á sjúkrahús voru börn að aldri. Barnið sem flutt var með sjúkraflugi á Landspítala Háskólasjúkrahús í Reykjavík er á gjörgæslu vegna fjöláverka. Aðrir hafa verið útskrifaðir eftir meðhöndlun.
Fjöldahjálparstöð var opnuð í Skautahöllinni þar sem Rauði Krossinn sinnti áfallahjálp. Viðbragðshópur Rauða Krossins bauð upp á áframhaldandi aðstoð í dag. Ef þörf er á frekari aðstoð er fólki bent á að hringja í hjálparsíma Rauða Krossins 1717.
Rannsókn málsins er í fullum gangi og miðar að því að rannsaka tildrög slyssins. Búast má við því að rannsókn málsins taki töluverðan tíma þar sem hún er afar umfangsmikil.
Heimild: Lögreglan á Norðurlandi eystra.