Rannsókn lögreglunnar á mannsláti á Ólafsfirði er í fullum gangi og miðar vel. Mánudaginn 3. október var gerð krafa um gæsluvarðhald yfir þremur aðilum, er hafa réttarstöðu sakbornings í málinu og úrskurðaði Héraðsdómur Norðurlands eystra þá alla í viku gæsluvarðhald. Tveir þessara aðila kærðu úrskurðinn til Landsréttar og seinni part miðvikudagsins 6. október staðfesti Landsréttur gæsluvarðhald yfir öðrum aðilanum en vísaði kröfunni frá hvað hinn aðilann varðar. Sá aðili var látinn laus í kjölfarið.
Skýrslutökur yfir sakborningunum hafa staðið yfir í gær og í dag og þá hefur réttarkrufning farið fram á hinum látna. Ekki er vitað hvenær niðustöður hennar liggja fyrir en það getur hlaupið á nokkrum vikum.
Rannsókn lögreglu miðar að því að leiða í ljós hvað átti sér stað í umrætt sinn en enn eru ýmsir þættir málsins óljósir. Rannsókn beinist meðal annars að því að upplýsa þá.
Ekki er hægt að upplýsa frekar um einstaka rannsóknaraðgerðir á þessu stigi en allra rannsóknaraðferða er beitt sem geta varpað ljósi á málið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.