Rammi á tæp 73% í Primex á Siglufirði

Útgerðarfyrirtækið Rammi hf. á Siglufirði hefur keypt 22,5 prósenta hlut Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í siglfirska líftæknifyrirtækinu Primex ehf.  Rammi hf. á nú 72,86 prósenta hlut í fyrirtækinu en Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað á um 14 prósent og Samherji hf. á Akureyri tæp átta prósent.

Primex var stofnað árið 1997 á Siglufirði af fyrirtækjunum Genís hf, Ramma hf og SR-mjöli hf. Framkvæmdastjóri félagsins er Ólafur Helgi Marteinsson. Þar starfa nú fjórtán manns. Fyrirtækið vinnur efnið kítósan úr rækjuskel. Efnið er notað í vörur á borð við lyf, fæðubótarefni, smyrsl, snyrtivörur og matvæli. Heimsþekkt fyrirtæki á borð við Loréal, Wella og Herbalife eru á meðal viðskiptavina Primex. Yfir milljarði króna hefur verið varið í uppbyggingu verksmiðju fyrirtækisins á Siglufirði, í rannsóknir, þróun og markaðsstarf.