Ragnar Ragnarsson og Lísa Dombrowe hlutu umhverfisviðurkenningu Fjallabyggðar sem veitt var í fyrsta skipti við hátíðlega athöfn 16. febrúar síðastliðinn.

Þau Ragnar og Lísa hafa svo sannarlega sýnt frumkvæði með aðgerðum sem koma umhverfinu til góða og er með viðurkenningunni þakkað fyrir einstakt framtak, fórnfýsi og elju í þágu samfélagsins og náttúrunnar.

Umhverfisviðurkenningin sjálf var í formi Hrafns eftir Aðalheiði Sigríði Eysteinsdóttur listamann, en Aðalheiður var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2022.

Umhverfisviðurkenning Fjallabyggðar er viðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu umhverfismála sem samfélagið og íbúar þess njóta góðs af. Viðurkenningin er veitt einstaklingum, fyrirtækjum eða starfsemi sem hafa sett fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir umhverfinu eða með því að sýna frumkvæði á annan hátt með aðgerðum sem koma umhverfinu til góða.