Ráðstöfum söluandvirði Hóls skynsamlega.
Kristján L Möller fyrrverandi Íþróttafulltrúi Siglufjarðar skrifar.
Fyrir skömmu skrifaði ég opið bréf til stjórnar UÍF og spurði þriggja spurninga um hugsanlega sölu á Íþróttamiðstöðinni að Hóli.
Stjórn ÚIF hefur svarað bréfinu og upplýst að Hóll hafi verið seldur fyrir 60 milljónir og útskýrt á greinargóðan hátt forsendur sölunnar og samþykkt ársþings UÍF frá í vor.
Ég vil minna á áhuga minn og umhyggju fyrir Hóli sem fyrrverandi Íþróttafulltrúi Siglufjarðar á þeim árum sem mest var byggt upp, ég get líka sagt í fullri hreinskilni að mig tekur það sárt að sjá hvað notagildið hafi minnkað og viðhald aukast sem ekki er til fjármagn fyrir.
Ég vil taka það skýrt fram að ég hef fullan skilning á ákvörðun stjórnar UÍF um sölu Hóls. Hóll má muna sinn fífil fegurri, eins og fram kom í yfirlýsingu stjórnar UÍF. Miklar breytingar hafa átt sér stað í íþróttalífi Siglufjarðar og Fjallabyggðar allrar, sem krefst þess að staða og stefna sé endurskoðuð. Notagildið hefur minnkað og viðhaldsþörf aukist með árunum og því erfitt að réttlæta takmarkaðar tekjur Íþróttafélaganna til að sjá um að halda mannvirkinu vel við. Það er óumdeilanlegt.
Ég var Íþróttafulltrúi Siglufjarðar í 12 ár og eitt af verkefnum mínum var að sjá um uppbyggingu á Hóli og fjármögnun þeirra framkvæmda. Með grein þessari vil ég aðeins rifja upp og setja á blað hvernig var staðið að uppbyggingunni.
Hvernig fór uppbyggingin fram og hvernig var hún fjármögnuð?
Öll árin sem uppbygging átti sér stað og þau voru mörg með áfangaskiptingum gáfu íþróttafélögin á Siglufirði eftir alla þá styrki, rekstrarstyrki sem annað, frá Siglufjarðarkaupstað og létu framlagið sem félögin áttu að fá renna beint til uppbyggingarinnar að Hóli, ásamt því að almennir félagar og forystumenn íþróttafélaganna lögðu fram mjög mikla sjálfboðavinnu við framkvæmdirnar. Mismiklar auðvitað eftir íþróttagreinum en mest lögðu fram og um leið afsöluðu sér mestum styrkjum Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg (SSS), Knattspyrnufélag Siglufjarðar (KS), Golfklúbbur Siglufjarðar (GKS) og Tennis og badmintonfélag Siglufjarðar (TBS) sem voru fjögur höfuð íþróttafélög bæjarins á þessum tíma og öll aðilar að Íþróttabandalagi Siglufjarðar. Íþróttabandalagið sjálft lagði einnig fram fé sem í raun og veru hefði annars runnið beint til þessara íþróttafélaga til reksturs og eflingar þeirra.
Uppbygging Íþróttamiðstöðvarinnar var sem sagt gerð á þennan hátt sem var allt öðruvísi heldur en t.d uppbygging malarvallarins við Túngötu og grasvallarins að Hóli þó svo að við báða þessa velli var mjög mikil sjálfboðavinna innt af hendi, en í þessum framkvæmdum sem hér er tekið dæmi um var Siglufjarðarkaupstaður framkvæmdaraðili og fjármagnaði framkvæmdina, með dyggri sjálfboðavinnu KS félaga og annarra velunnara.
Hvað á að gera við söluandvirði Hóls?
Ég fagna því sem segir í yfirlýsingu stjórnar UÍF um ráðstöfun söluandvirðis eignarinnar um að nota þá fjármuni til að efla íþróttalíf til framtíðar.
Ég er þeirrar skoðunar að framangreind félög öðrum fremur eigi að fá mest ef ekki allt söluandvirði eignarinnar sem þau byggðu upp ef fjármununum á að deila út til rekstrar.
Einnig mætti hugsa sér – eins og oft er gert með slíkar einskiptis tekjur að stofna sérstakan sjóð til eflingar íþróttalífs í bæjarfélaginu. Sjóðurinn hafi t.d. það hlutverk að stuðla að uppbyggingu íþróttamannavirkja, styðja afreksíþróttafólk og iðkendur frá efnaminni heimilum. Eignir sjóðsins ætti að ávaxta með tryggum hætti. Forðast ber að ganga á höfuðstól sjóðsins.
Einnig mætti hugsa sér að fara blandaða leið af þessu tvennu.
Lokaorð
Ég vil óska kaupendum alls hins besta með eignina og að þeim gangi vel með viðhald og frekari uppbyggingu og finni Íþróttamiðstöðinni að Hóli verðugt og gott hlutverk á ný, eins og var á blómaskeiði hennar hér á árum áður.
Virðingarfyllst og með íþróttakveðju
Kristján L. Möller
Fyrrverandi Íþróttafulltrúi Siglufjarðar