Evrópsku Kítinsamtökin, EUCHIS 2023, halda ráðstefnu á Siglufirði 11.-14. september 2023, en fyrsti ráðstefnudagurinn var í gær. Samtökin eru leiðandi á heimsvísu í kítíniðnaðnum og munu rúmlega hundrað vísindamenn og fólk úr nýsköpunargeiranum vítt og breitt um heiminn sækja ráðstefnuna. Ráðstefnugestum bauðst að kaupa gistingu á Sigló Hótel, Hótel Siglunesi, Salt Gistihúsi á Siglufirði og The Northen Comfort Inn í Ólafsfirði, en hótelin voru öll frátekin fyrir þessa ráðstefnugesti.

Ráðstefnugestir eru um 120 manns og koma víða að.  Flestir frá Evrópu og Norður Ameríku, en einnig frá Asíu (Kína, Indlandi) og Suður Ameríku (Brasilíu). Gestunum bauðst einnig að kaupa afþreyingu í ferðaþjónustu á meðan dvölinni stendur, meðal annars sigling á Örkinni, kayak,gönguferðir og hjólreiðaferðir.

Það er ánægjulegt að samtökin hafi valið Siglufjörð sem ráðstefnustað en hingað til hefur hún farið fram í stórborgum í Evrópu og til
stóð að hún yrði haldin í Moskvu í ár. Ráðstefnan fer meðal annars fram í Bláa húsinu á Rauðkutorgi, fundarsal Sigló Hótel. Sannarlega innspýting fyrir samfélagið að fá svona stóra ráðstefnu á þessum árstíma.

Evrópsku Kítínsamtökin (EUCHIS, www.euchis.org) standa fyrir ráðstefnu þessari annað hvert ár, en þau hafa það að meginmarkmiði að hvetja til hvers kyns rannsókna á kítíni og kítósani, bæði grunnrannsókna og hagnýtra. Kítín og afleiða þess, kítósan, eru á Siglufirði unnin úr rækjuskel sem
fellur til sem úrgangur frá rækjuvinnslu og væri ella fargað.

Kítósan er lífvirkt náttúrulegt efni sem leysa mun mörg kemísk efni af hólmi, og hafa yfirgripsmiklar rannsóknir átt sér stað um allan heim á þessar fjölþættu fjölliðu. Kítósan brotnar auðveldlega niður í náttúrunni og hefur reynst hafa margvíslega og margbreytilega nýtingarmöguleika, m.a. innan
læknisfræði, efnafræði, landbúnaðar, í sáravörum, snyrtivörum og fæðubótarefnum, sem og í hreinsun vatns. Sjálfbær framleiðsla og þróun á nýtingarmöguleikum efnisins styður við Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna m.a. vegna jákvæðra umhverfisáhrifa.

Á ráðstefnunni á Siglufirði í september koma saman allir helstu sérfræðingar heims á sviði kítín- og kítósanrannsókna og þar munu því gefast tækifæri fyrir íslenska rannsakendur og háskólanema að styrkja tengsl sín við alþjóðlega rannsakendur á þessu sviði. Háskóli Íslands hefur staðið fyrir öflugum
rannsóknum á þessu sviði í samvinnu við fjölmargar rannsóknarstofnanir og fyrirtæki og tekur virkan þátt í öllum undirbúningi ráðstefnunnar.