Áslaug Arna heimsótti jafnframt Vesturfarasetrinu á Hofsósi. Heimsóknin er liður í undirbúningi ráðherra fyrir heimsókn til Vesturheims á næstu dögum þar sem ráðherra mun m.a. taka þátt í Íslendingadeginum í Gimli í Kanada. Valgeir Þorvaldsson á Vesturfarasetrinu kynnti uppbyggingu safnsins og sögu þess mikla fjölda Íslendinga sem hélt vestur um haf í leit að betra lífi á ofanverðri 19. öld.

Þá sótti ráðherra Mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga heim þar sem henni var kynnt sú vöruþróun sem þar hefur átt sér stað undanfarin ár og rannsóknir, iðnaður og nýsköpun hafa fléttast saman á áhugaverðan hátt. Þessi þróun hefur m.a. falist í því að fundnar hafa verið leiðir til að tryggja að lítill sem enginn úrgangur fari frá fyrirtækinu og leiðir til að nýta allt hráefni til vöruframleiðslu fundnar þess í stað.

„Skagafjörður er dæmi um áhugavert samfélag þar sem öll málefnasvið ráðuneytisins fléttast saman með áhugaverðum hætti. Þar tvinnast saman þekking, rannsóknir, nýsköpun og iðnaður með árangursríkum hætti og myndar kjarnann í efnahagslífi svæðisins,“ sagði Áslaug Arna eftir vel heppnaða heimsókn í fjörðinn og nágrenni.